Orðin flog og flogakast eru því miður meðal margra íslenskra orða sem hafa fengið aðra merkingu í slangurnotkun en jafnframt haldið sinni upprunamerkingu sem aukamerkingu (e. connotation). Það þýðir að þegar einhver segir „ég fékk flog“ þó hann meini „ég missti stjórn á mér“ (þetta er meira að segja í íslenskri orðabók; ég tók dæmið af snöru.is) getur hlustandinn hugleitt málið og því næst dregið eina af nokkrum mögulegum ályktunum, til dæmis:
a) Viðkomandi varð svo æstur að hann stífnaði upp og kipptist til líkt og hann væri að fá flogakast.
b) Viðkomandi varð svo æstur að hann sá lykt, heyrði liti og leið eins og hann væri ekki í líkama sínum lengur, líkt og hann væri að fá flogakast.
c) Viðkomandi varð svo æstur að hann datt fyrirvaralaust, líkt og hann væri að fá flogakast.
d) Viðkomandi varð svo æstur að hann veifaði höndunum ósjálfrátt, líkt og hann væri að fá flogakast.
e) Viðkomandi varð svo æstur að hann starði út í loftið, líkt og hann væri að fá flogakast.
f) Viðkomandi varð mjög æstur.
Í flestum tilvikum er rétta ályktunin væntanlega f) Viðkomandi varð æstur. Til að einfalda málið væri því sniðugast að segja bara það sem maður meinar: „ég missti stjórn á mér“ eða „ég varð mjög æstur.“ Ekki bara til að forðast óþarfa rugling, heldur líka - og aðallega - vegna þess að það er ekki óhugsandi að hlustandinn hafi sjálfur eða eigi aðstandanda sem hefur upplifað raunverulegt flogakast. Flogakast er ekkert til að grínast með, hvort sem um er að ræða bókstaflegt, í mynd- eða viðlíkingu. Það getur jafnvel verið særandi fyrir fólk sem tengist flogaveiki á einhvern hátt að heyra orðin flog og flogakast notuð í léttu samhengi. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu mikil áhrif þessi orð hafa.
Það er svo enn önnur saga þegar fólk gerir bókstaflega grín að flogaköstum og/eða notar þau sem efni í brandara.
No comments:
Post a Comment