Sunday, November 11, 2012

Almennt um Medic Alert skartgripi


Standard Medic Alert armband úr stáli
Bakhliðin á Medic Alert armbandinu mínu. Efst er símanúmerið með
 landnúmerinu +354 fremst, í miðjunni stendur EPILEPSY/FLOGAVEIK
og neðst er raðnúmerið mitt, 04853.
Fyrir þá sem ekki vita eru Medic Alert skartgripir oftast armbönd eða hálsmen úr stáli, silfri eða gulli (gullhúðað þ.e.) sem langveikt fólk eða fólk með alvarleg ofnæmi gengur með. Á annarri hlið merkisins er alþjóðlegt lógó og á hinni hliðinni eru grafnar mikilvægustu upplýsingarnar um eigandann: sjúkdóm/ofnæmi, símanúmer sem hægt er að hringja í allan sólarhringinn til að fá læknisfræðilegar upplýsingar, og raðnúmer. Já, ég er með raðnúmer. Það þarf semsagt að gefa það upp ef hringt er í símanúmerið og þá fást frekari upplýsingar, svosem lyfjameðferð, læknar, aðstandendur, jafnvel sjúkrasaga í stuttu máli. Eigandi Medic Alert skartgrips á líka alltaf kort í "kreditkortastærð" sem er almennt mælt með að geymt sé í veskinu, en á því eru líka nöfn lækna og nánustu aðstandenda. Þannig að ef þú sérð einhvern úti á götu vera að fá flogakast og hann/hún er með Medic Alert armband eða hálsmen, þá er ekki vitlaust að gramsa í veski viðkomandi og hringja í tengiliði sem eru skráðir á Medic Alert kortið, frekar en að hringja á sjúkrabíl (nema auðvitað að manneskjan sé í status epilepticus eða einhvers konar öðruvísi hættu).

Það eru til fleiri gerðir af samskonar "sjúkraskartgripum", t.d. það sem er kallað SOS-talisman, en þá er skartgripurinn með hólfi þar sem miði með sjúkraupplýsingum er geymdur. Það er hægt að fá alls konar mismunandi armbönd, hálsmen, lyklakippur, USB-lykla, úr o. s. frv. Það sem allt þetta dót á sameiginlegt er að einhver útfærsla á annað hvort Hermesarstafnum eða Asklepíosarstafnum er grafin, prentuð eða máluð á það.

Þegar velja skal úr þessu svakalega úrvali skartgripa þarf að hafa ýmislegt í huga. Til dæmis hvort maður vill armband, hálsmen eða svokallað "hermannamerki" ("dog-tag"). Það er erfiðara að taka armband af heldur en hálsmen, þannig að mínu mati er það hentugara. Maður vill líka stundum vera með perluhálsmen og það er ekki flott að vera með Medic Alert hálsmen samtímis, en maður ætti hins vegar aldrei að taka það af sér. Skartgripirnir geta líka verið vel skreyttir, svo skreyttir að sumir vilja meina að þeir þekkist jafnvel ekki í sundur frá hefðbundum skartgripum. Það er þá venjulega tilgangurinn, því sumir vilja ekki bera alltaf með sér þetta merki um að það sé eitthvað "að". Hinsvegar, til þess að raunverulegur tilgangur Medic Alert skartgripa og annarra álíka gangi upp, þurfa þeir að vera öðruvísi og áberandi, þannig að um leið og þeir eru "prettied up" þá er sá tilgangur ekki lengur til staðar.

Þó að Medic Alert skartgripir séu gagnlegir og betra að hafa þá en ekki, þá eru því miður ekki allir sem vita hvað þeir eru og þar af leiðandi geta þeir stundum verið tilgangslausir. Ég las fyrir stuttu sögu enskrar stelpu sem fékk krampakast úti á götu og þegar hún rankaði við sér var sjúkraliði að bogra yfir henni. Hún var, eins og gengur eftir krampakast, frekar máttlaus og ringluð, en hún hafði nógan mátt til að benda á SOS-hálsmenið sitt. Í stað þess að skoða það nánar sagði sjúkraliðinn "yes, that's pretty." Hann gerði sér semsagt ekki grein fyrir því hvað hún var að benda á; hélt bara að þrátt fyrir að hún væri svona dösuð þá væri hún nógu hress til að sýna honum fína hálsmenið sitt.

Þrátt fyrir almenna nytsemi Medic Alert armbands hef ég ekki verið eigandi slíks frá því ég var greind með flogaveiki þegar ég var 14 ára. Ég hélt í þá von að ég myndi vaxa upp úr henni. Það var ekki fyrr en ég fékk tvö köst í röð vorið 2009, nokkrum dögum fyrir 22 ára afmælið mitt, að ég gaf upp vonina, sætti mig við þá framtíðarsýn að ég myndi vera flogaveikisjúklingur það sem eftir væri og ég gæti alveg eins fengið mér raðnúmer. Það var nokkuð áfall fyrir mig, en þá voru einmitt liðin tæp fjögur ár frá því ég hafði síðast fengið kast, er ég byrjaði fyrsta árið mitt í James Gillespie's High School með stæl og fékk flogakast í fyrsta þýskutímanum. Sjónarvottum þótti reyndar meira til þess koma að sjá kennarann stökkva yfir skrifborðið sitt og þykir mér leitt að hafa misst af þeirri sjón. Ms Malcolm er kjarnakona og hún var í uppáhaldi hjá mér þau tvö ár sem ég var nemandi við JGHS.

Það hefur bara einu sinni komið fyrir að ég hef tekið Medic Alert armbandið af mér og það var á brúðkaupsdaginn minn í sumar. Þetta er ekki fallegasti skartgripur sem um getur og ég vildi frekar vera með perluarmbandið mitt, en ég geymdi Medic Alert armbandið í veskinu mínu á meðan. Þetta er líka eina skiptið sem mér hefur fundist ég fullkomlega örugg án armbandsins. Allan daginn var ég umkringd fólki sem vissi af flogaveikinni; ég held að ca. 90% gestanna hafi þekkt a.m.k. eitthvað til, enda voru bara nánustu ættingjar og vinir okkar brúðhjónanna viðstaddir. Í þokkabót voru þrír læknar meðal gesta, einn hjúkrunarfræðingur og einn læknanemi og að minnsta kosti níu af gestunum höfðu annað hvort séð mig eða hugsað um mig strax eftir kast. Sessunautar mínir við háborðið voru þar að auki með nýjustu upplýsingar um lyfjainntöku mína. Ég hefði ekki getað verið öruggari. Að sjálfsögðu gerði þetta mér kleift að slaka algjörlega á og ég komst í gegnum þann yndislega dag krampa-laus.

Þrátt fyrir að mér finnist ég almennt ekki vera örugg nema ég sé með Medic Alert armbandið, þá hefur það aldrei nýst mér sem skyldi. Það hefur aðeins einu sinni gerst síðan ég fékk armbandið að ég fékk flog úti og armbandið hefði getað komið að gagni, en það var í febrúar 2011, á Íslandi, og þarafleiðandi var ég vel dúðuð: með húfu, í úlpu og með lúffur, þannig að armbandið var vel falið. Vegfarendunum sem komu að mér liggjandi á grúfu á grasinu við Melatorg og hringdu á sjúkrabíl kom annað hvort ekki til hugar að leita að armbandi eða hálsmeni, eða þá að þeir lögðu ekki í það. Ég lái þeim það ekki; ég hef væntanlega ekki litið frýnilega út, liggjandi meðvitundarlaus á grasinu og hver veit hvað hafði komið fyrir mig? Ég fattaði ekki að spyrja hvort þeir hefðu kannski séð mig fá kastið og verið þarna allan tímann. Eins og alltaf eftir flog þá var ég ringluð og algjörlega laus við tímaskyn, hugsaði um ómerkilegustu hluti en spáði ekkert í þeim eðlilegustu.

Þegar ég rankaði við mig leit ég upp og sá tvo unga menn beygja sig niður og horfa á mig, ég veit ekki alveg hvort þeir hafi verið hræddir eða áhyggjufullir á svipinn. Kannski smá af hvoru. Þeir sögðu mér að liggja bara og að það væri sjúkrabíll á leiðinni. Ég man að ég sagði ekki neitt, var bara hissa, skildi ekki alveg hvað ég var að gera þarna, en eftir smá umhugsun tókst mér að leggja saman tvo og tvo og fattaði að þar sem ég var að vakna úti á jörðinni en ekki í rúminu mínu þá hlyti ég að hafa fengið flogakast. Ég hló vandræðalega og sagði það. Eða spurði; ég man það ekki alveg. Þeir voru greinilega áhyggjufullir að heyra mig hlæja - hvers konar manneskja hlær þegar hún vaknar úr meðvitundarleysi eftir flogakast? Ég man að því næst fann ég að buxurnar mínar voru blautar og einhverra hluta vegna þótti mér ómögulegt að bláókunnugir menn sæu það, þrátt fyrir að þvaglát væri algengur fylgifiskur flogakasts og alls ekki mér að kenna. Ég staulaðist á fætur, allt of snemma, og tók nokkur skref til að geta hallað mér upp að steypuskiltinu sem á stendur "MELASKÓLI". Þannig gat ég falið blauta blettinn og átti auðveldara með að anda að mér fersku lofti og losna hægt og rólega við svimann. Ég sagði þeim að ég þyrfti ekki sjúkrabíl, ég væri bara á leiðinni í kirkjuna hinum megin við götuna, en það var of seint; þeir voru löngu búnir að hringja og við heyrðum í sírenunum í fjarska. Ég hefði heldur ekkert getað labbað óstudd yfir í kirkjuna, en ég vildi ekki viðurkenna það.

Þegar sjúkrabíllinn kom stoppaði hann hinum megin við hringtorgið, við Hótel Sögu, og annar af mönnunum hljóp yfir til að ná í hann. Ég sá hann aldrei aftur og fékk því aldrei tækifæri til að þakka honum fyrir hugulsemina. Hinn maðurinn hvarf inn í rauða bílinn sem hafði beðið eftir honum allan tímann á kantinum við Neshaga um leið og sjúkrabíllinn var kominn og sjúkraliðarnir voru komnir út til mín. Ég fékk því ekki heldur tækifæri til að þakka honum fyrir. Ég hefði kannski getað gert það fyrr, en miðað við hversu ringluð ég var og utan við mig þá hefði mér ábyggilega ekki dottið það í hug. Þeir áttu allavega þakkir skildar. Þegar ég pæli í því eftir á þá er ég þakklát því að þeir skuli hafa stoppað, hringt og beðið hjá mér - annnar þeirra var meira að segja að keyra framhjá og stoppaði - því að það hefði frekar fyllt mig örvæntingu gagnvart almenningi ef ég hefði rankað þarna við mér alein, rétt hjá götu og gangstétt þar sem ég sást vel. Tilhugsunin um að fólk hefði bara farið framhjá án þess að láta það sig máli skipta að það lægi meðvitundarlaus manneskja á grasinu hræðir mig. Þannig að ég er þakklát.

Sjúkraliðarnir vildu fyrst fara með mig á bráðamóttökuna; þegar ég neitaði því, þá vildu þeir fara með mig heim; ég afþakkaði það líka og sagðist bara vera á leiðinni í kirkjuna hinum megin við götuna, þar væri kærastinn minn (núverandi eiginmaður) á kóræfingu og hann gæti keyrt mig heim. Þeir voru efins en gátu lítið annað gert en heimtað að fá að skutla mér þessa 100 metra í kirkjuna. Ég sættist á það og settist í sjúkrabílinn. Svo keyrði bílstjórinn löturhægt á meðan hinir sjúkraliðarnir spurðu mig um nafn, kennitölu o.þ.h. til að fylla út eyðublað um að ég afþakkaði formlega þjónustu sjúkrabílsins. Í huga mínum börðust Jóakim Aðalönd sem vonaðist til þess að fá ekki sendan reikning fyrir útkallinu sem ég hafði ekki beðið um, og samviska mín sem vissi að tíma þessara sjúkraliða væri betur eytt hjá fólki sem væri ábyggilega einmitt núna að fá hjartaáfall eða að lenda í bílslysi. Ég var allavega viss um að það væri pottþétt einhver sem þyrfti frekar á hjálp þeirra að halda en flogaveik stelpa sem þurfti bara að komast heim, og var meira að segja með einkabílstjóra innan seilingar.

Eftir að ég hafði kvittað og fengið afrit af eyðublaðinu og fullvissað sjúkraliðana um að það væri í fína lagi með mig laumaðist ég inn í Neskirkju og hlustaði á 5 mínútur af kóræfingu hjá Háskólakórnum. Mér tókst á endanum að veifa til Steina og hann kom til mín, enda hissa á því að ég sæti þarna í stað þess að hafa komið og tekið þátt í æfingunni. Ég sagði honum með kökk í hálsinum að ég hefði fengið flogakast fyrir 10 mínútum og bað hann um að skutla mér heim. Það gerði hann, ég skreið því næst upp í rúm og hann náði í Dominos pizzu handa mér. Er undarlegt að ég skuli hafa ákveðið að giftast þessum manni?

2 comments:

  1. Takk fyrir þennan góða og fróðlega pistil. Var einmitt að velta því fyrir mér síðast í gær hvaðan slöngutáknið í apóteki Landsspítalans væri komið og á leiðinni að fletta því upp - þá er það komið!
    Péess: Hvað er annars langt síðan þú fékkst síðast flogakast?

    ReplyDelete
  2. Það er komið rúmt ár síðan; það var í september eða október 2011 - ég man ekki hvort! Það var allavega annað hvort rétt áður eða rétt eftir trúlofunina :)

    ReplyDelete