Friday, January 4, 2013

Afmæli

Ég á afmæli í dag. Ekki „alvöru“ afmæli, heldur flogaveikiafmæli. Í dag eru ellefu ár síðan ég fékk flogakast #2 sem leiddi til þess að ég var greind með flogaveiki og var sett á lyfjakúr. Þó að ég hafi verið tólf ára þegar ég fékk fyrsta kastið, þá fékk ég það næsta ekki fyrr en tveimur árum og þremur mánuðum síðar. Læknar greina flogaveiki ekki fyrr en manneskja hefur fengið að minnsta kosti tvö köst, þannig að ég lít svo á að ég hafi ekki verið flogaveik „nema“ í ellefu ár. Mér finnst það líka auðveldara, því ég man þessa dagsetningu, 4. janúar 2002, betur en hina fyrstu. Það var í september 1999, í kringum þann 20., man það samt ekki 100%. Ég var jú bara tólf ára.
Ocean's Eleven
Það eru ýmsir hlutir sem hjálpa mér að muna dagsetninguna 4. janúar 2002 og þá helst þeir félagar Brad Pitt og George Clooney. Kvöldið áður hafði ég nefnilega farið í bíó með uppáhaldsfrænkunni minni á myndina Ocean's Eleven en sú mynd var frumsýnd á Íslandi á annan í jólum 2001. Stundum man ég ekki hvort að ég hafi fengið kastið í janúar 2001 eða 2002: þá fletti ég bara upp Ocean's Eleven og sé að hún var ekki komin út í janúar 2001 þannig að sú dagsetning væri ómöguleg.
Ég var heima að passa litla bróður minn þegar ég fékk kastið, hann var þá rúmlega sjö ára. Það var í hádeginu, mamma líklega nýfarin út því að ég var ennþá að koma mér á fætur, dauðþreytt og mygluð unglingsstúlkan, rétt svo búin að klæða mig og eitthvað að dunda mér inni á baðherbergi. Vissi næst af mér á baðherbergisgólfinu með ótal marbletti, ógleðistilfinningu í maganum og bleytublett á vandræðalegum stað. Bróðir minn stóð í dyragættinni með skelfingarsvip, ég gelti eitthvað á hann, vildi ekki að hann sæi stóru systur sína í þessu ástandi. Þegar hann var horfinn sjónum dröslaði ég mér inn í rúm (sem betur fer ekki langur spotta frá baðherbergisgólfinu) og steinsofnaði. Þegar ég vaknaði var mamma komin heim, búin að setja fötu við rúmstokkinn og hugga litla bró; greyið hafði haft vit á því að hringja í hana og klaga mig - ef ég man rétt þá sagði hann eitthvað á þá leið að ég hefði verið leiðinleg við hann. Mamma gerði sér þá strax grein fyrir því að ég hefði fengið flogakast og dreif sig heim.
Ég í kápunni góðu vorið 2007
Daginn eftir var dekrað við mig, sjúklinginn, og mamma keypti handa mér fallega kápu sem ég hafði haft augastað á í einhvern tíma. Þetta voru kostakaup þar sem ég er ennþá að nota þessa kápu, ellefu árum síðar, og hef einungis einu sinni þurft að herða sauminn á hnöppunum!
Ég held að þetta sé í fyrsta skiptið sem ég man eftir flogaveikiafmælinu mínu á deginum sjálfum - og mig grunar að það sé aðallega vegna þess að ég merkti það inn á dagatalið mitt. Venjulega man ég bara eftir því nokkrum vikum síðar og stundum hugsa ég um það í kringum þá tíma sem ég fer að hitta taugalækninn minn - semsagt þegar ég er séstaklega að pæla í flogaveikinni. Svo ekki sé minnst á þegar ég fæ flogakast, þá kemst maður ekki hjá því að telja dagana, vikurnar, mánuðina....

No comments:

Post a Comment